+2,0 gráður
February 2, 2020
Föstudagskvöldið 7. febrúar kl. 20:00 frumflytur organistinn Kristján Hrannar Pálsson loftslagsverkið +2,0°C á Klais-orgel Hallgrímskirkju. Rithöfundurinn Andri Snær Magnason heldur stutta ræðu í upphafi.
Tónleikarnir eru hluti af Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar. Miðaverð 2.500.- krónur og allur ágóði tónleikanna rennur til Votlendissjóðs.
Kristján Hrannar er fæddur í Reykjavík árið 1987 og hefur starfað sem tónlistarmaður um árabil. Hann er í dag fastráðinn organisti við Óháða söfnuðinn í Reykjavík auk þess að stýra tveimur kórum á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur komið víða við í tónlist en hann var meðlimur indí-rokk sveitarinnar 1860 á árunum 2010 til 2012. Hann sendi frá sér rafpopp-plötuna og sólóverkefnið Anno 2013 hjá Dimmu-útgáfu. Plötuna vann hann með færeyingnum Janusi Rassmusen úr Kiasmos. Þá hefur Kristján kennt jazz-píanóleik við FÍH og sinnt ótal verkefnum sem sjálfstætt starfandi tónlistarmaður.
+2,0°C er annað verk Kristjáns sem snertir á loftslagsmálum en árið 2016 gaf hann út plötuna Arctic take one sem fjallar um staði á norðurslóðum sem hafa orðið fyrir áhrifum af hlýnun jarðar.